©Sturluson Entertainment Ltd.

mánudagur, september 25

Fluttur!

Mikið rosalega er ég fluttur!

Nýju heimkynnin!

mánudagur, september 11

Afsakið hlé

Helstu hápunktar síðustu daga.


Stjáni bró heimsótti höfuðborgina. Það er orðið ansi fátítt. Ég er farinn að hafa nettar áhyggjur af blygðunarlausri ást hans á landsbyggðinni. Stjáni tók þessa mynd sjálfur. Hann var að skoða símann minn og fannst ógurlega sniðugt að geta séð sjálfan sig í smáskjánum.


Mannvitsbrekkan sem á og rekur húsið sem m.a. hýsir XFM, KissFM, Skjá 1 er efni í stóra og viðamikla rannsókn. Hann er sjálfskipaður þúsundþjalasmiður, er alltaf að spara hundraðkallana með því að gera hlutina sjálfur, en þegar upp er staðið er kostnaður við lagfæringar farinn að hlaupa á hundruðum þúsunda. Þetta afrekaði hann á dögunum þegar verið var að steypa sökku undir einhverja bévítans súlu. Ég veit ekki ennþá hvert eiginlegt hlutverk súlunnar verður, en karlinn sló upp þessum fína fína steypuramma...sem gaf sig nánast um það leyti sem steypubíllinn kom inn á bílaplanið. Hann lét það nú ekki slá sig út af laginu. Það var nú eiginlega bara heppni að steypan skyldi ekki finna sér leið út á bílaplan og festa þar ónefndan fólksbíl um ókomna tíð. Starfsmenn hússins, og gestir, njóta nú þessa framúrstefnulega listaverks, sem er staðsett við aðalinnganginn, og líklega má taka þann pól í hæðina að í hvert sinn sem maður gengur inn eða út er maður minntur á uppruna sinn og þá hörku sem einkennir þjóðina á landinu bláa...forfeður okkar þurftu jú að berjast við náttúruöflin af miklum þrótti.


Íslendingar hafa sett ný viðmið í netkosningum. Héðan í frá hljóta öll viðmið í netheimum að vera kosningaþátttakan í Rockstar Supernova og sú skemmtilega staðreynd að íbúar Hawaii eru 12 milljónir. Þjóðin er að missa sig...og þá er í rauninni enginn undanskilinn. Ég stend mig að því að rýna í líkamstjáningu þremenninganna sem hafa gæfu og framtíðaráætlanir keppenda í hendi sér og hef komist að þeirri niðurstöðu að Gilbey Clarke er greindarskertur. Sá eini þremenninganna sem líklegur er skrafs og ráðagerða er Jason vinur minn. Annars er þetta allt saman farið að snúast upp í andhverfu sína. Gamla góða keppnisskapið segir manni að Magni verði að vinna þetta, í þeirri von að heimsbyggðin átti sig á takmarkalausum hæfileikum fámennrar þjóðar á norðurhjara, en hins vegar hefur hann ekkert í þessa hljómsveit að gera. Ég er alveg tilbúinn til að viðurkenna virðingu mína fyrir afrekum þremenninganna, mismikla reyndar, en Supernova er drepleiðinleg hljómsveit. Ég myndi frekar vilja hlusta á upptöku úr vinnslusalnum í frystihúsinu á Dalvík heldur en að sitja undir heilli plötu af þessum ósköpum.

Stundum þarf ekkert rosalega mikið til að gleðja mann!

Getraun þáttarins...ég skal hundur heita ef hún reynist ekki erfiðari en sú síðasta!

Úr hvaða kvikmynd eru þessi orðaskipti...

- Just how bad is it?
- It´s a fire. All fires are bad.

laugardagur, ágúst 19

Fóru...

...allir Íslendingar í heiminum niður í miðbæ Reykjavíkur? Ég var þarna á ferðinni um kaffileytið og þar sem fjöldinn hamlaði talsvert för fór þetta í taugarnar á mér. Komst að því í eitt skipti fyrir öll að þegar karlmenn taka sér stjórnunarstöðu fyrir aftan barnakerru dettur heili þeirra úr sambandi. Þeir virðast halda að þeir öðlist einhvers konur ofurhæfileika, t.d. að bílar og fólk komist hreinlega í gegnum bæði þá sjálfa og allt sem þeir snerta. Þeir taka sér líka mjög gjarnan biðstöðu úti á miðri götu, jafnvel á miðri gangbraut, sem er hvorki líklegt til vinsælda né afreka. Líklega er það þessi sérstæða handstaða við barnakerruýtingar sem hefur hamlandi áhrif á blóð- og súrefnisflæði til heila karlmannsins, sem er umhugsunarvert í ljósi þess að í sumum tilfellum er toppstykkið ekkert rosalega orkufrekt til að byrja með! Handstöðukenningin fær byr undir báða vængi þegar tekið er tillit til þess að svipaður greindarskortur gerir stundum vart við sig þegar karlpeningurinn ýtir innkaupakerru á undan sér.
Það er reyndar svolítið fyndið að það er ekki nema við hátíðleg tækifæri sem karlar virðast sjá einhvers konar tilgang í því að taka að sér stjórn barnakerra. Þetta er einhvers konar trend. Kannski eitthvað svipað og grilleinokunin...nema að grilltaktarnir eru hvorki daga- né árstíðarbundnir á nokkurn hátt. Það er heilsársmisskilningur.

Maður rekst á margt sérkennilegt og skemmtilegt í netheimum. Rambaði einhverra hluta vegna inn á heimasíðu fyrirtækisins D3. Ekkert merkilegt við það í sjálfu sér. Þannig. Komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þetta fyrirtæki hlýtur að eiga met í fjölda millistjórnenda. Í starfsmannatali eru 20 manns. Í þessum hópi eru (í handahófsröð) framkvæmdastjóri, fréttastjóri, vefstjóri, tæknistjóri, þróunarstjóri, efnisstjóri (sem ég held örugglega að sé vinkona Stjána bró), þjónustustjóri, verkefnastjóri og síðast en ekki síst sölu- og markaðsstjóri. 9 stykki! Það gerir 45% starfsmanna ef mér skjöplast ekki! Magnað!

Fann mynd af helsta afreki Tommy Lee í háskóla. Hann settist jú á skólabekk á gamals aldri og að sjálfsögðu var gerður úr því raunveruleikaþáttur eins og þeir gerast bestir. Ég sá þennan þátt auglýstan á einhverri stöðinni hérna heima, þannig að það fer að styttast í að við fáum að njóta herlegheitanna. Fáum sögum fer af námsárangri Tómasar litla, sem í sjálfu sér kemur ekkert sérlega mikið á óvart, en hins vegar lét hann til sín taka í skólahljómsveitinni!
Sá Elton John vera að belgja sig í einhverjum spjallþætti fyrir skemmstu. Ég er ekki mikill aðdáandi Eltons, sumt sem hann gerði snemma á ferlinum er ágætt, en þegar allt kemur til alls finnst mér hann óttaleg lofthæna. Það var kannski þess vegna sem ég fór að leita að mynd af manninum stunda þá iðju sem hann staglaðist á í téðu viðtali að hann stundaði mikið. Tennis.

Ég hélt í smástund að ég væri búinn að finna galla á Google. Ég var að leita að mynd af Elton John í tennis og fékk bara einhverja dýralífsmynd! Sá fyrir mér að ég gæti grætt fúlgur fjár með því að hóta stofnnördunum tveimur að opinbera þennan galla. Svo áttaði ég mig á því að Google var ekkert að klúðra málunum. Þetta er náttúrulega bara rostungurinn Elton með tennisspaða!

Þessi mynd gleður mitt geð!Bleikskyrtungurinn er alveg með þetta! Hann hefur líklegar verið rétt nýbúinn að sleppa höndunum af barnakerrunni. Súrefnið ekki alveg farið að skila sér upp á efri hæðina! Ég þori að veðja að hann hefur valið sér þessi föt sjálfur!

Að lokum...getraun þáttarins.

Úr hvaða bíómynd eru þessi orðaskipti?

- Is your mommy here?
- No, sir. Actually, she´s out at the market buying Pampers for all us kids.

Þá byrjar það...

Leiktíðin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefst um helgina. Úpps. Um leið og ég skrifaði orðið "knattspyrnu" rifjaðist upp pistill úr ranni hins fróma Karls Th. Birgissonar, sem birtist í Fréttablaðinu, að mig minnir, fyrir skemmstu. Hann er ekki sáttur við þetta orð, knattspyrna. Hann vill að á Íslandi sé talað um fótbolta, enda sé knöttur eitthvað allt annað en hið kringlótta dáleiðslubeð sem milljónir á milljónir ofan fylgjast með í viku hverri og byggja jafnvel lífsskoðanir sínar að miklu leyti á. Ég er ekki alveg sammála. En það er svo sem allt í lagi.

Í aðdraganda leiktíðarinnar í enska rakst ég á ansi hreint magnaða ljósmynd. Hún hefur valdið mér talsverðu hugarangri.
Er Giggs að æfa knatttækni í Blómavali? Hvað er þessi trjágrein að flækjast fyrir honum? Eða væri kannski nær að spyrja hvað Giggs er að gera í grennd við þessa grein? Er fræðilegur möguleiki að verðmiðinn sé á trénu...eða er þetta kannski tilkynning um að búið sé að úða á greinina skordýraeitri?

Hér er frétt vikunnar. Það þarf ekkert að ræða það frekar.

föstudagur, ágúst 18

Tjahhhh...

Assgoti líst mér vel á ráðningu Friðriks Inga í starf framkvæmdastjóra KKÍ. Reynsla hans og skynsemi, að ógleymdri takmarkalítilli greind, á eftir að koma að góðum notum. Hann lengi lifi!
Friðrik er tónviss maður með afbrigðum, hefur góðan smekk og á afrekaskránni er m.a. framkoma í Músíktilraunum! Mikið hefði ég viljað sjá hljómsveitina Splendid, með Friðrik Inga og Dodda litla, öðru nafni Love Guru, innanborðs á sviði! Leiðir þeirra lágu reyndar fyrst saman í Surprise Of the Century, sem er líklega best nefnda hljómsveit Íslandssögunnar!
Annars geta hljómsveitarnöfn ráðið ansi miklu um árangur erfiðsins. Hljómsveitin Feedback hefði líklega ekki náð langt. Hvað þá Hype. En U2...það er allt annar handleggur. Wicked Lester er reyndar ágætt hljómsveitarnafn, en Kiss er ennþá betra. Steðjabandið var kannski líklegt til stórræðna, en Stuðkompaníið var samt alltaf líklegra. Mér finnst reyndar Leaves alveg magnað hljómsveitarnafn. Veit ekki af hverju. Supernova er glatað.

Plötuumslög eru líka býsna mikilvæg. Þetta hefur reyndar breyst svolítið með tilkomu tækninnar. Nú gónir maður ekki eins svakalega á plötuumslagið á meðan maður hlustar, þessu er bara frussað inn í tölvuna og umslagið lagt til hliðar. Umslögin misstu líka svolítinn sjarma þegar þau urðu að þessum blessuðu bæklingum sem fylgja geisladiskunum. Hugmyndavinnan er allt önnur. Uppröðun laga breyttist líka talsvert með tilkomu geisladisksins. Bubbi Morthens sagði mér það einu sinni að hér í eina tíð hefði einn helsti höfuðverkurinn í kringum útgáfu nýrrar plötu verið lagaröðin, stærsta málið var hvaða lag ætti að vera fyrsta lag á b-hliðinni. Þá var nú öldin önnur!

Hér er samansafn nokkurra hrikalegustu plötuumslaga allra tíma. Tvö þeirra fá sérstaka heiðurstilnefningu...
Það er alveg hreint með ólíkindum hvað Julie er óhamingjusöm á 16 ára afmælisdaginn! Það er engu líkara en að John frændi hafi eitthvað ósiðlegt í huga!
Hvernig datt Freddie þetta eiginlega í hug? Það hefur nú verið lögð talsverð vinna í þetta umslag...þannig lagað...en ætli hann hafi aldrei í öllu ferlinu kveikt á perunni?

Jim Post kemur líka sterkur inn.

Hemmi Gunn, sá mæti maður, fer langt með að eiga versta plötuumslag allra tíma á Íslandi. Gulu smekkbuxurnar og gamla konan! Sólroðinn á Mannakornsplötunni fyrir fáeinum árum var svo hrikalegur að umslaginu var breytt. Það hefur ekki gerst mjög oft hér á litla Fróni.
Á hinum enda spýtunnar er smáskífa sem gefin var út fyrir allmörgum árum. Mig minnir endilega að hljómsveitin hafi heitið Árný...Jón Kjartan frændi man þetta örugglega...en platan hét altént Árný trúlofast. Á plötuumslaginu, á milli þessara tveggja orða, Árny og trúlofast, voru tvær nótur á nótnablaði. Nóturnar Fís og A. Djúpt!
Bestu og/eða verstu plötuumslög allra tíma??? Orðið er laust!

Missti mig aðeins í tónlistarniðurhali í gær. Datt í eitthvert Massive Attack / Portishead / Ennio Morricone-stuð. Glory Box verður með tíð og tíma fært til bókar sem eitt besta lag allra tíma. Það var líka hressandi að rifja upp aðalstefið úr Twin Peaks...úr smiðju meistara Morricone.

Mig langar í reiðhjól. Og bassabox í bílinn. Það vantar "úmfið". Þarf líka að komast til læknis/sjúkraþjálfara/nuddara/kirópraktors/heilara. Öxlin er að drepa mig.
Sem minnir á óbotnanlega fyrripartinn...

Verkur sár í vinstri öxl,
verri þó í hægri mjöðm

Sá/sú sem getur botnað þetta fær millinafnið Snillingur skráð í Þjóðskrá. Sem er ekki að fara að gerast.

fimmtudagur, ágúst 17

Stórsnjallt...

...hjá Magna að taka Creep. "What the hell am I doing here...I don´t belong here." Orð að sönnu. Maður veltir því fyrir sér hvort það hafi verið trikk hjá framleiðendum þáttanna að hafa besta söngvarann í hópi þriggja neðstu. Það er gömul saga og ný að óvænt atburðarrás vekur athygli á viðkomandi sjónvarpsþætti, eykur umtalið og þar með áhorfið.

Fiskidagurinn stóð undir væntingum og vel það. Ég hitti fleira frændfólk núna en í fyrra. Ráðstafaði tímanum líka betur. Mesta furða hvað það á miklu betur við mig að vera edrú!Hafnarsvæðið...Brain Police að spila í Drafnarbrautinni (hvar Jónbi trommari bjó í æsku!) og flugeldasýningin. Hápunktar hátíðarinnar. Í tímaröð.

Hafði vit á því að gista hjá Gissa frænda. Hann er með tækjadellu. Taldi sjö fjarstýringar á stofuborðinu. Á þakinu eru tveir gervihnattadiskar. Bíómyndasafnið hans heillaði mig þó mest. Í stað þess að hvolfa í mig söngolíu, blaðra tóma vitleysu við kunnuga jafnt sem ókunnuga og finna til verkja daginn eftir lagðist ég í bíómyndirnar. Sá nokkrar góðar. Inside Man og 16 Blocks standa líklega upp úr.
Gissur á líka Rambó, ljúfasta Labrador-hund sem ég hef komist í kynni við. Hann er reyndar af dönsku bergi brotinn, hefur þurft að dúsa í einangrun í Hrísey og hvaðeina. Þeir náðu ágætlega saman, Rambó og Tumi. Enda frændur.Inga Rún kláraði annað reiðnámskeið sumarsins í síðustu viku. Það fer væntanlega að styttast í að hún geri kröfu um að eignast sinn eigin reiðskjóta. Mikið verður gaman þá!


fimmtudagur, ágúst 10

Langþráð...

sumarfrí. Loksins. Tímasetningin gæti reyndar talist vafasöm. Veðurútlitið er ekkert sérstakt og svo er farið að styttast ansi hressilega í að enski boltinn fari að rúlla, sem hefur afgerandi áhrif á sumarfríið. Þess verður engu að síður notið af alefli.

Mannlífsrannsóknir Snorrans eru alltaf að leiða eitthvað nýtt og spennandi í ljós. Hraðahindranir hafa stytt mér stundirnar síðustu dægrin. Þær eru ansi merkilegt rannsóknarefni.
Hinar ýmsu tegundir hraðahindrana hafa verið reyndar hér á landi, með misjöfnum árangri. Sikk-sakkið í gamla bænum í henni Reykjavík er stórfenglegt og blómakerin sem sett hafa verið upp hér og þar í tryllingslegri tilviljanaröð gleðja hvorki auga né geð. Í eina tíð þótti líklegt til árangurs að reisa lítil fjöll á akbrautunum miðjum og blindhæðin á Dalvík er gott dæmi um slíkt. Framkvæmdir voru bæði tímafrekar og kostnaðarsamar, heill vinnuflokkur tók sér frí frá hálendisvegagerð til að tryggja að vandað yrði til verksins, og afraksturinn varð skrímsli sem skipti bænum í tvennt. Búsetuskilgreiningin á Dalvík breyttist, allt í einu átti hún ekki lengur við Kaupfélagið...þetta snérist um það hvort fólk bjó utan eða innan við hindrun. Á veturna varð þessi hraðahindrun oftar en ekki illfær og varla nema á færi þeirra sem áttu jeppa og stóra bíla að brölta þar yfir. Fjallið fékk sem betur fer aldrei formlegt nafn, þótt vissulega hefði það verið viðeigandi, og hefur nú verið fjarlægt.
Smærri hraðahindranir hafa oftast skilað þeim árangri einum að stytta manni stundirnar við aksturinn og gera annars tilbreytingalitlar ökuferðir örlítið skemmtilegri. Maður hefur ekkert þurft að hægja ferðina neitt sérstaklega, en þyngdarleysið sem varir í nanósekúndu eða þar um bil hefur haft sitt skemmtanagildi. Nú eru hins vegar komnar á göturnar hraðahindranir sem rótvirka. Loksins. Það er algjörlega ómögulegt að ætla sér að taka þessar á ferðinni. Galdurinn? Minnka kvikindin!
Þegar ég keyrði fram á þessa hraðahindrun á dögunum fékk ég svipaða tilfinningu og ég fékk hérna um árið þegar ég skundaði, einu sinni sem oftar, til vallar með hinu stórmerka knattspyrnuliði Angelica Raiders. Þegar ég sá hobbítana í fyrstu hringavitleysumyndinni nokkrum árum síðar fannst mér þekkja líkamsbygginguna og nokkur andlit aftur, þarna voru andstæðingarnir úr ógleymanlega leiknum mættir aftur! Við Angelica-sveinar hófum leik með bros á vör og töldum líklegt að við myndum vinna með nokkurra tuga marka mun. Minningin er ljúfsár, en ef mér skjöplast ekki unnu hobbítarnir okkur með fjórum. Eða fimm. Þetta var sem betur fer æfingaleikur.
Ég nálgaðist þessa hraðahindrun af sama hroka. Glotti við tönn og ætlaði að taka þetta á ferðinni. Sem betur fer er Skódinn sterkbyggður og endingagóður. Gangverkið er enn í fínu lagi, þrátt fyrir mikið og gott högg. Ég náði ekki einu sinni að dælda toppinn innanfrá, þrátt fyrir mjög heiðarlega tilraun. Í þessu tilviku skiptir stærðin máli.

Íslendingar eru á löngum köflum óheyrilega fyndin þjóð. Við látum alls kyns vitleysu og siðleysi yfir okkur ganga án þess að gefa frá okkur svo mikið sem stunu, en einu sinni á ári missir stór hluti þjóðarinnar vitið. Þetta virkar á svipaðan hátt og ctlr-alt-del-fídusinn á tölvunni. Það þurrkast allt út og verður að endurræsa allt heila klabbið. Tekjubirtingin hefur bara þessi áhrif. Mér er alveg sama þótt eitthvert fólk hafi milljónir og jafnvel tugi milljóna í mánaðarlaun. Verði því að góðu. Vonandi eykur auðurinn lífsgleði þess og þrótt. Mér verður frekar hugsað til þeirra sem ekki ná endum saman, þrátt fyrir framlag sitt til þjóðarbúsins. Það er stærra áhyggjuefni en þetta milljónabrölt.

Ég nenni eiginlega ekki að nöldra um málfar á opinberum vettvangi, en mér líður stundum eins og ég hafi misst af því þegar ákveðið var að breyta tungumálinu til hins verra, lögleiða málvillur og almennt bull og hætta að gera þá kröfu að fjölmiðlafólk gæti komið frá sér óbrengluðum setningum á réttu og skiljanlegu máli. RÚV og Mogginn eru reyndar í algjörum sérflokki og standa alltaf fyrir sínu, en aðrir miðlar eru flestir algjörlega úti á túni. Sumar fréttir NFS skil ég hreinlega ekki; orðalag, málvillur og misnotkun orðatiltækja eru með ólíkindum og málvillurnar sem vaða uppi t.d. í Fréttablaðinu eru óskiljanlegar með öllu. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar. Maður lifandi.
Ekki reyna að halda því fram að þetta sé "þróun tungumálsins". Það er þvaður.

Fiskidagurinn mikli um helgina! Það ætti í rauninni ekki að þurfa ástæðu sem þessa til þess að heimsækja Dalvík, sem er Paradís á jörð! En tilefnið, þ.e.a.s. Fiskidagurinn, er ærið. 35 þúsund manns í fyrra. Held ég. Ókeypis fiskur og aðrar veitingar að ógleymdum óborganlegum skemmtiatriðum. Ekki gleyma fiskisúpukvöldinu, föstudagskvöldinu, sem er ómissandi hluti ævintýrisins. Flest hús bæjarins opin gestum og gangandi og rjúkandi súpa á boðstólum. Þetta er snilld sem hverjum Íslendingi er nauðsynlegt að upplifa. Þetta er svo magnað að ég fórna Morrissey-tónleikunum! Það er svona svipað og að sleppa því að vera viðstaddur eigin fæðingu!

Að lokum...getraun þáttarins. Af hverju er þessi mynd?